Íslenski boltinn

ÍA fallið í 1. deildina - Þróttur og Fjölnir úr hættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir náðu ekki að bjarga ÍA frá falli.
Tvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir náðu ekki að bjarga ÍA frá falli. Mynd/Arnþór

ÍA er fallið í 1. deildina eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við KR á heimavelli í kvöld. Þrír aðrir leikir fóru fram í Landsbankadeild karla á sama tíma.

ÍA er með tólf stig og er nú sjö stigum á eftir Fylki, sem er í tíunda sæti, þegar tveir leikir eru eftir.

Fylkir og HK eru þó enn í bullandi fallbaráttu en bæði liðin töpuðu sínum leikjum í kvöld.

Fylkir mátti þola sitt þriðja tap fyrir Fjölni í sumar og í þetta sinn á heimavelli, 3-0. Þetta var fyrsti sigur Fjölnis í deildinni í meira en tvo mánuði.

Þá vann Grindavík enn einn útisigurinn er liðið lagði HK, 2-0, í Kópavoginum.

Fylkir stendur þó betur að vígi þegar tvær umferðir eru eftir og eru með fjögurra stiga forystu á HK.

Fjölnir og Þróttur komu sér formlega úr fallbaráttunni í kvöld. Þróttarar töpuðu þó fyrir Val, 2-0, í kvöld en eru sjö stigum á undan HK í níunda sætinu.

Valsmenn tylltu sér upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum á Þrótti í kvöld og hafa eins stigs forystu á Fram sem er í fjórða sæti og þá kemur KR í fimmta sæti, tveimur stigum á eftir Val.

Blikar eru með 30 stig, þremur á eftir Val, en eiga leik til góða gegn FH í næstu viku.

Fylgst var náið með gangi leikjanna á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa meira um þá með því að smella á viðkomandi leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×