Lífið

Svali Frakkinn mætir í ágúst

Sébastien Tellier spilar á Íslandi 28. ágúst.
Sébastien Tellier spilar á Íslandi 28. ágúst.

Hinn eitursvali og æðislegi Sébastien Tellier leikur með hljómsveit sinni í Reykjavík 28. ágúst. Frakkinn vakti mikla athygli í Eurovision þar sem hann flutti lag sitt „Divine" fyrir Frakkland.

Hann reið reyndar ekki feitum hesti frá keppninni, lenti í 19. sæti með 47 stig. En þótt hann hafi verið of svalur fyrir Evrópu kveikti hann í Íslendingum, sem gáfu honum átta stig. Það er því eflaust himnasending fyrir marga hér að fá að sjá meistarann í návígi.

Lagið í keppninni er af plötunni Sexuality, sem Sébastien lýsir sem „ellefu laga hugleiðslu um ástar­atlot". Kynþokkinn drýpur af hverjum tóni á plötunni og það var sjálfur Guillaume Emmanuel Paul de Homem-Christo, annar helmingur Daft Punk, sem verkstýrði henni. Þetta er þriðja sólóplata Sébastien.

Sú fyrsta, L'incroyable Vérité (Hinn ótrúlegi sannleikur), kom út 2001. Í kjölfarið hitaði hann upp fyrir Air á miklu tónleikaferðalagi um heiminn og lagið „Fantino" heyrðist í mynd Sofiu Coppola, Lost in Translation. Önnur platan, Politics, kom út 2005 og fjallaði hún um stjórnmál. Á plötunni er hið epíska meistaraverk „La Ritournelle".

Í því tekur Tony Allen, trommari og hljómsveitarstjóri Fela Kuti, virkan þátt. Það lag sló í gegn svo um munaði og vakti athygli alls heimsins á þessum sérvitra snillingi.

Nánari upplýsingar um miðasölu og staðsetningu tónleikanna verða tilkynntar síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.