Innlent

Stolið úr handtöskum eldri kvenna

Úr kringlunni Veskin fundust flest í ruslatunnum í verslanamiðstöðinni.
Fréttablaðið / heiða
Úr kringlunni Veskin fundust flest í ruslatunnum í verslanamiðstöðinni. Fréttablaðið / heiða

Lögregla skoðar nú upptökur úr öryggismyndavélum í Kringlunni í því skyni að hafa hendur í hári vasaþjófs eða -þjófa sem hnupluðu minnst átta peningaveskjum af fólki í verslanamiðstöðinni í fyrradag.

Öryggisverðir fengu tilkynn­ingar frá átta viðskipta­vinum á miðvikudag um að þeir söknuðu peningaveskja sinna. Tveir þeirra hafa kært þjófnaðinn til lögreglu, sem hvetur fólk til að fara að öllu með gát.

Öryggisverðir létu lögreglu í té þær upplýsingar sem þeim höfðu borist. Að sögn varðstjóra lögreglu voru það fyrst og fremst eldri konur með handtöskur sem urðu fyrir barðinu á vasaþjófinum eða -þjófunum. Sjaldnast áttuðu þær sig á því að eitthvað vantaði fyrr en heim var komið, þegar þær fundu ekki peningaveskið í handtöskunni.

Þjófurinn, eða þjófarnir, mun hafa hnuplað veskjunum úr hand­töskum kvennanna, tekið úr þeim reiðufé og hent þeim síðan í ruslið. Nokkur veski fundust í rusla­fötum í verslunarmiðstöðinni.

Athygli vakti að greiðslukort voru skilin eftir í veskjunum og telur lögregla það benda til þess að ekki hafi verið um skipulagða glæpastarfsemi að ræða, heldur frekar einhvern sem þurfti að fjármagna neyslu sína. Einnig hefur orðið vart við sams konar hnupl í Smáralind, meðal annars í versluninni Debenhams.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×