Innlent

Kortleggja forsendur samflots

Ríkisstjórnin fundaði með aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum sveitarfélaganna í gær.
Ríkisstjórnin fundaði með aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum sveitarfélaganna í gær.

Stórt samflot með opinberu félögunum og félögum á almennum vinnumarkaði er í bígerð fyrir endurskoðun kjarasamninga á næsta ári ef tekst að ljúka lausum kjarasamningum þannig að engir hópar verði skildir eftir án þeirra kjarabóta sem samið hefur verið um á árinu. Ríkisstjórnin og forystumenn á vinnumarkaði báru saman bækur sínar í Ráðherrabústaðnum í gær.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að stefnt sé að því að setja af stað vinnu varðandi endurskoðun kjarasamninga og samstarf um launastefnu fyrir næstu ár og kortleggja forsendur hennar. Viðfangsefnið sé flókið og margt sem þurfi að skoða til að hægt sé að þroska lausnir og úrræði. Alþýðusambandið geti augljóslega ekki tekið afstöðu nema sjá hvað sé í spilunum varðandi fjárlög og stefnu stjórnvalda.

„Að sama skapi á eftir að ræða ýmislegt og ég held að það sé mikilvægt að hefja þá vinnu. Við þurfum að sjá hvað er í bígerð varðandi fjárlögin, velferðarkerfið og skattamálin. Að sama skapi þurfum við líka að sjá hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar fyrir atvinnulífið því að okkar fólk er að missa vinnuna í þúsundavís og við köllum eftir aðgerðum," segir hann.

Gylfi vonast til að upplýsingar liggi fyrir sem fyrst, jafnvel í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×