Innlent

Boða til mótmæla við höfuðstöðvar VR

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.
Hópur félaga í VR hefur boðað til mótmælafundar við höfuðstöðvar félagsins í Húsi verslunarinnar. Hópurinn er óánægður með ákvörðun stjórnar Kaupþings um að fella niður ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem tekin voru vegna kaupréttarsamninga. Gunnar Páll Pálsson formaður VR sat í stjórn Kaupþings fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna og samþykkti hann gjörninginn sem hefur valdið ólgu víða. Stjórn félagsins hefur hins vegar lýst yfir fullum stuðningi við Gunnar Pál.

Kristófer Jónsson, félagi í VR segir stjórninni ekki sætt í ljósi þessa og er það krafa hans og félaga hans sem standa að mótmælunum að stjórnin víki. „Það er ekki hægt að bjóða fólki þetta. Ef menn gera mistök eiga þeir að axla ábyrgð á þeim," segir hann og hvetur sem flesta félaga í VR að mæta.

„Við ætlum að hittast klukkan tólf og ég vona að sem flestir mæti. Við erum búnir að auglýsa þetta á Facebook og það eru allir velkomnir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×