Innlent

Fá ekki að hitta Guðlaug Þór

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi og formaður SÁÁ.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi og formaður SÁÁ.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi og formaður SÁÁ, segir að framkvæmdastjórn SÁÁ fái ekki áheyrn hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra.

Frá áramótum hefur SÁÁ rekið göngudeildarstarfsemi á Akureyri og í Reykjavík án fjárveitingar frá heilbrigðisráðuneytinu. Kostnaðurinn við starfsemina er 100 milljónir á ári og undanfarin ár hefur ráðneytiið greitt ríflega 60 prósent af kostnaðinum.

,,Þetta árið bregður svo við að heilbrigðisráðuneytið veitir enga fjárveitingu til starfsins án þess að hafa tilkynnt SÁÁ eða skjólstæðingum þess að slíkt stæði til," segir Þórarinn í pistli á heimasíðu SÁÁ.

Þórarinn segir að framkvæmdastjórn SÁÁ hafi lengi óskað eftir viðræðum við Guðlaug Þór og heilbrigðisráðuneytið um fjármögnun göngudeildarinnar án þess að fara fram á það með formlegum og skriflegum hætti enda hafi samtökin og ráðuneytið átt í samstarfi á fleiri sviðum.

,,Um mitt sumar var þó ljóst í hvað stefndi og framkvæmdastjórn sendi ráðherra bréf með beiðni um þessar viðræður. Ráðherrann vísaði málinu til samninganefndar sinnar sem fékk þau fyrirmæli að ekki kæmi til greina að veita fjármagni til göngudeildarstarfs SÁÁ 2008," segir Þórarinn.

Vegna fjárhagsvanda SÁÁ sendi stjórn samtakan frá sér yfirlýsingu í lok ágúst og síðan þá hefur legið inni beiðni um fund með Guðlaugi Þór um göngudeildarstarfið.

,,Síðast í október greip framkvæmdastjórn SÁÁ til viðamikilla sparnaðarráðstafana og uppsagna án þess að hafa fengið áheyrn hjá ráðherranum og bíður enn," segir Þórarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×