Innlent

Sjötíu prósent vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni

Meirihluti landsmanna, eða 70 prósent, vill að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað í Vatnsmýrinni. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann í september og byrjun október fyrir Flugstoðir.

Fram kemur í tilkynningu Flugstoða að þetta sé mun hærra hlutfall en fyrir þremur árum þegar sömu viðhorf voru könnuð. Þá töldu 55 prósent svarenda að völlurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Vakin er athygli á því að tveir af hverjum þremur Reykvíkingum vill ekki hreyfa flugvöllinn og að mati 68 prósenta íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur á ekki að færa flugvöllinn. 78 prósent íbúa annarra sveitarfélaga landsins eru sömu skoðunar.

Þegar afstaðan er skoðuð með tilliti til stjórnmálaskoðana kemur fram að um helmingur kjósenda Samfylkingar telur rétt að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram þar sem hann er. Mun meira fylgi er við núverandi staðsetningu flugvallarins hjá kjósendum annarra flokka. Þannig telja 92 prósent kjósenda Framsóknarflokksins að völlurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni, 75 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks og 71 prósent kjósenda Vinstri - grænna.

Könnunin var gerð 25. september til 5. október síðastliðinn á Netinu. Úrtakið var 1200 manns af landinu öllu á aldrinum 18 til 75 ára sem voru valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarhlutfall var 67,5 prósent.

Flugstoðir vekja athygli á því að um hálf milljón farþega hafi farið um Reykjavíkurflugvöll á síðasta ári og fjölgaði þeim um rúmlega 12 prósent frá árinu áður. Alls vinna um 600 manns við margvísleg störf tengd flugi á Reykjavíkurflugvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×