Innlent

Miklar líkur á seinkun á framleiðsluaukningu í Straumsvík

MYND/GVA

Miklar líkur eru á því að seinkun á útboðum í Búðarhálsvirkjun valdi því að seinkun verði á aukinni framleiðslu í álveri Alcan í Straumsvík að mati Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra.

Rósa Guðbjartsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á frétt Fréttablaðsins af því að Landsvirkjun hefði seinkað útboðum sínum vegna Búðarhálsvirkjunar fram í mars en til stóð að bjóða byggingu virkjunarinnar út í haust.

Rósa lýsti yfir vonbrigðum með þetta og benti jafnframt á að forsvarsmenn álvers Alcan í Straumsvík hygðust kaupa hluta orkunnar frá Búðarhálsvirkjun og auka framleiðslugetu sína um 40 þúsund tonn. Spurði hún ráðherra hvort frestun á útboðum Landsvirkjunar hefði áhrif á framkvæmdir Alcan og hvernig ráðherra sæi fyrir sér að álverið fengi næga orku til framleiðsluaukningar.

Össur Skarphéðinsson sagði að erfitt væri fyrir fyrirtæki, jafnvel sterk eins og Landsvirkjun, að fá lánsfé í núverandi kreppu. Hann sagðist þó vænta þess að veðrinu slotaði fyrr en marga grunaði.

Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hefðu átt að kosta 23-25 milljarða og virkjunin að færa 85 megavött. Þetta hefði verið talin forsenda þess að auka framleiðslu hjá Alcan og sagðist hann í hreinskilni telja að það væru miklar líkur á að seinkun útboða vegna Búðarhálsvirkjunar þýddi samsvarandi seinkun á framleiðsluaukningu Alcan. Hér væri þó aðeins um seinkun að ræða en ekki yrði hætt við framkvæmdirnar.

Þá benti hann á að verið væri að kanna hvort tilboðsgjafar hjá Landsvirkjun gætu lagt hönd á plóginn til fjármögnunar verkefninu en fyrir slíku væru fordæmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×