Lífið

Engir stjörnustælar í Eurobandinu

Sólveig Birna Gísladóttir förðunar- og Airbrushmeistari sér um að Eurobandið líti glimrandi vel út í Serbíu þegar kemur að förðun en hún hefur átta ára reynslu af að fríkka upp á íslenskar stórstjörnur hjá Sjónvarpinu. „Ég mun sjá um að farða bæði Friðrik og Regínu og líka þær Heru og Guðrúnu Gunnars sem sjá um bakraddirnar en ég farða þau ekki eingöngu fyrir keppniskvöldið heldur mun ég sjá um að þau líti vel út alla ferðina í þessa þrettán daga bæði fyrir blaðamannafundi, veislur og aðrar uppákomur. Á daginn mun ég sjá um andlitsförðun Regínu og Friðriks," segir Sólveig.

„Ég tek með Airbrush brúnkuefni svo þau verði frískleg á sviðinu. Markmiðið er að þau verði elegant og glamúr allan tímann. Ég þarf að huga vel að því að þetta er sviðsförðun fyrir sjónvarp en auga myndavélarinnar er ofboðslega næmt og ég þarf að passa að allt verði ofsalega fínlegt og að förðunin komi ekki of ýkt út á sjónvarpsskjánum og þesss vegna þarf ég að passa að fara ekki yfir þessa fínu línu. Mestu máli skiptir að þeim líði vel á sviðinu," segir Sólveig.

Eru Regína og Friðrik með stjörnustæla? "Nei alls ekki. Þau eru yndisleg, alveg frábær. Skemmtilegir krakkar og ég hlakka mikið til að fara út með þeim. Það eru forréttindi að fá að fara út og upplifa þetta ævintýri með þeim."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.