Innlent

Rak meintan morðingja

Premyslaw Plank
Premyslaw Plank

Premyslaw Plank, sem grunaður er um aðild að hrottalegu morði í Póllandi, hefur unnið sem iðnaðarmaður í Hafnarfirði undanfarnar vikur. Honum var sagt upp störfum á laugardaginn eftir að Fréttablaðið greindi frá því að handtökuskipan hefði verið gefin út á hendur honum.

Vinnuveitandi mannsins sagði Vísi í dag að Prank hefði verið ágætisstarfsmaður sem ekki hafi verið til vandræða. Hann hafi verið á Kárahnjúkum áður en hann kom til Hafnarfjarðar þar sem hann er búsettur nú.

Prank fékk vinnu hjá blikksmiðju í Hafnarfirði í gegn um mann sem sér um að útvega pólska iðnaðarmenn.

Í pólskum fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið fjallað mikið um mál Premyslaw Plank. Hann er sagður tilheyra glæpagenginu Niedzióła og mun vera kallaður Plankton af félögum sínum í genginu.

Í pólskum fjölmiðlum er það gagnrýnt harðlega að maður sem grunaður er um hrottalegt morð geti um frjálst höfuð strokið á Íslandi. Flóknum framsalsreglum er kennt um en Ísland á ekki aðild að framsalssamningum sem Evrópusambandslöndin hafa gert sín á milli. Ræðismaður Pólverja á Íslandi segir að þetta geri það að verkum að Pólverjar sem eru á flótta undan réttvísinni leiti frekar hingað til lands en ella.

Premyslaw Plank er grunaður um aðild að morði á hnefaleikamanni í Póllandi. Að sögn lögreglu var sveðja notuð við verknaðinn. Plank hefur sagst ætla að gefa sig fram við lögreglu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×