Innlent

Viðurkennir að Berlínarbollur séu innfluttar

SB skrifar
Yfirlýsing hefur borist frá Bakarameistaranum.
Yfirlýsing hefur borist frá Bakarameistaranum.

Í yfirlýsingu frá Bakarameistaranum kemur fram að auk kleinuhringja og hnetuvínarbrauða í bakaríum keðjunnar séu Berlínarbollurnar og smjörhornin einnig innflutt frosin. Það stangast á við fyrri orð framkvæmdastjóra Bakarameistarans.

Áður hafði framkvæmdastjóri Bakarameistarans staðhæft að einungis kleinuhringirnir og hnetuvínarbrauðin væru innflutt.

"Þær vörutegundir sem fluttar eru inn og seldar í bakaríum Bakarameistarans eru kleinuhringir, pekan-vínarbrauð, Berlínarbollur og smjörhorn (croissant)," segir í yfirlýsingu Vigfúsar Kr. Hjartarsson, framkvæmdastjóra Bakarameistarans.

Í viðtali við Vísi þann 6. júní sagði Vigfús: „Eina sem við flytjum inn eru kleinuhringir. Það er af hagkvæmnisástæðum."

Daginn eftir bætti hann þó við eftir að afgreiðslustúlka í bakaríinu Suðurveri greindi frá því að fleiri vörur væru fluttar inn frostnar að hnetuvínarbrauðin væru innflutt.

Yfirlýsingin frá Bakarameistaranum staðfestir orð bakarísstelpunnar sem sagði: . „Ég man að hnetuvínarbrauðið, skinkuhornin og kleinuhringirnir kom allt frosið frá útlöndum."

Vigfús sagði í samtali við Vísi fyrir skömmu: "Mér yfirsást þessar tvær vörur í upphafi málsins að öðru leyti vísa ég í yfirlýsingu mína um málið."

Yfirlýsingu Vigfúsar má lesa í heild sinni hér að neðan.

---



Yfirlýsing frá Bakarameistaranum

- vegna frétta um erlent bakkelsi og „falsaða vöru"


Síðustu daga hafa birst fréttir á visir.is sem snúast að hluta til um að Bakarameistarinn selji erlent bakkelsi til viðskiptavina sinna. Gefið er í skyn að reynt hafi verið að fela það fyrir neytendum. Þá er talað um að selt sé afþítt, upphitað bakkelsi. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning og að gefnu tilefni er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Hjá Bakarameistaranum eru framleiddar um það bil 400 mismunandi vörutegundir. Alla jafna eru um 200 mismunandi vörutegundir í boði hverju sinni. Þær vörutegundir sem starfsfólk Bakarameistarans framleiðir ekki, en eru seldar í bakaríum þess, eru að jafnaði 2-3. Alls er um að ræða fjórar vörutegundir.

Aldrei hefur verið reynt að fela eða villa um fyrir viðskiptavinum Bakarameistarans að um aðkeypta/erlenda framleiðslu sé að ræða. Til dæmis hafa verið haldnir „amerískir dagar" og „danskir dagar" þar sem ekki ætti að fara fram hjá viðskiptavinum að verið er að kynna vörur frá viðkomandi löndum.

Þær vörutegundir sem fluttar eru inn og seldar í bakaríum Bakarameistarans eru kleinuhringir, pekan-vínarbrauð, Berlínarbollur og smjörhorn (croissant). Eins og að framan var getið eru sjaldnast fleiri en 2-3 erlendar vörutegundir á boðstólum. Bakarameistarinn flytur inn í fyrrnefndar vörueiningar frosið deig af virtum framleiðendum þar sem gæði, ferskleiki og hagkvæmt verð vörunnar eru í fyrirrúmi. Deigið er síðan afþítt og bakað - vel að merkja - í hinum sex bakaríum sem rekin eru á vegum Bakarameistarans á höfuðborgarsvæðinu.

Allar framleiðsluvörur Bakarameistarans eru unnar í bakaríi fyrirtækisins í Suðurveri. Deig er síðan flutt til bakaríanna og bakað þar. Með þessu móti er tryggt að viðskiptavinir Bakarameistarans fái ávallt nýbakað bakkelsi allan daginn.


Tengdar fréttir

Pólsk brauð í bakaríum Myllunnar

Fyrrverandi bakari hjá Myllunni segir brauðið sem Myllan selur í Hagkaupum flutt inn frá Póllandi; honum hafi verið sagt að ljúga þegar fólk spurði hvort bakkelsi væri bakað á staðnum.

Frosið brauð sagt bakað á staðnum

Stórmarkaðurinn Krónan auglýsir brauð sem sé "bakað á staðnum". Deigið er hins vegar flutt til landsins frosið og forbakað og aðeins hitað upp í stórmörkuðunum. Framkvæmdastjóri Bakarameistarans segir bakstur lögverndaða iðn.

Ekki gott að selja falsaða vöru

"Það er slæmt ef verið er að blekkja neytendur," segir neytendafrömuðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, Doktor Gunni, um fréttir Vísis af starfsaðferðum bakaría og stórmarkaða. Vinsælt bakkelsi er flutt inn frosið frá Danmörku.

Bakarísstelpa stígur fram: Hnetuvínarbrauð afþídd í bakaríum

„Bakkelsið kom næstum allt inn frosið og svo vorum við látin hita það upp," segir Heiðrún Backmann, fyrrverandi starfsmaður Bakarameistarans. Svo virðist sem bakaríin baki ekki bakkelsi á staðnum heldur láti afgreiðslustúlkur hita upp forbakaðar og frostnar vörur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×