Fótbolti

Wenger: Ítalir eru í sárum eftir skellinn

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að ítalska landsliðið sé í sárum eftir 3-0 skellinn gegn Hollendingum á EM og segir að taugar leikmanna verði þandar til hins ítrasta á föstudaginn þegar þeir mæta Rúmenum.

3-0 skellurinn sem Ítalir fengu í opnunarleik sínum var sá þyngsti sem ítalska landsliðið hefur fengið í aldarfjórðung og Wenger hefur áhyggjur af því hvernig heimsmeistararnir muni standast pressuna á föstudaginn. Þar verða Ítalir að vinna sigur eða eiga á hættu að falla úr keppni.

"Hollendingar komu til leiks af meiri sannfæringu og einbeitingu. Ítalir virtust ekki andlega tilbúnir í leikinn, en það voru Hollendingarnir sannarlega. Sumir Ítalir segja að leikurinn hafi verið hræðilegur af þeirra hálfu, en það var hann ekki. Þetta var góður leikur af beggja hálfu en Hollendingar nýttu færin sín," sagði Wenger í samtali við ítalska fjölmiðla.

"Nú þurfa Ítalir að berjast við tvöfalda andlega áskorun, því það verður erfitt fyrir þá að hrista af sér 3-0 tap og horfa fram á að þeir verði að vinna næsta leik," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×