Fótbolti

Heimamenn úr leik á EM

Senturk fagnar jöfnunarmarki sínu
Senturk fagnar jöfnunarmarki sínu NordcPhotos/GettyImages

Heimamenn Svisslendingar þurftu í kvöld að bíta í það súra epli að verða fyrsta þjóðin til að falla úr leik á EM í knattspyrnu. Svisslendingar töpuðu 2-1 fyrir Tyrkjum í æsilegum leik.

Hakan Yakin kom heimamönnum yfir með marki í fyrri hálfleik, þar sem á köflum var spilaður hálfgerður sundbolti í úrhellisrigningu á St Jakob-Park í Basel.

Yakin klúðraði svo dauðafær skömmu síðar og Svisslendingum var refsað þegar Semih Senturk skoraði með skalla í síðari hálfleik og jafnaði fyrir Tyrki.

Það var svo Arta Turan sem innsiglaði sigur Tyrkja í uppbótartíma þegar skot hans hrökk af varnarmanni og í netið á svissneska markinu.

Portúgalar hafa 6 stig á toppi A-riðilsins, Tékkar og Tyrkir 3 og Svisslendingar eru án stiga.

Það er því ljóst að Tyrkir og Tékkar spila hreinan úrslitaleik um það hvort liðið fer áfram í 8-liða úrslitin ásamt Portúgölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×