Innlent

Feðradagur í skugga fjármálakreppu

Hluti af auglýsingunni sem birtist í morgun.
Hluti af auglýsingunni sem birtist í morgun.

Feðradagurinn er haldinn í dag í þriðja skiptið en það er félag Foreldra um jafnrétti sem stendur að deginum. Lúðvík Börkur Jónsson formaður félagsins segir að í upphafi hafi krafan um daginn einfaldlega komið vegna mæðradagsins. Dagurinn á að minna fólk á stöðu og réttindi barna og feðra sem ekki búa við hefðbundið fjölskyldumynstur.

Lúðvík segir að þriðja hvert barn á Íslandi búi hjá öðru foreldrinu og í 92% tilvika sé það móðirin sem fer með forræði barnsins. Hann segir lagaumhverfið sem snýr að þessum málum vera 10-15 árum á eftir nágrannalöndunum.

„Ég hef oft líkt þessu við umræðuna um samkynhneigða í Færeyjum þar sem þeir fylgja örðum lögum en nágrannaþjóðirnar, það má berja samkynhneigða og það er ekkert gert í því. Í hvert skipti sem þingið reynir að laga þetta þá rísa upp sterk öfl í þjóðfélaginu sem eru trúfélög og sértrúarsöfnuðir," segir Lúðvík og bætir við að þegar umræða um réttindi feðra og barna hér á landi komi upp rísi mjög sterkir hópar upp gegn slíkum breytingum.

Þar nefnir Lúðvík kvennréttindasjónarmið sem eru mjög sterk hér á landi. „Í löndunum í kringum okkur hafa þessi sjónarmið alltaf verið hávær gegn þessum breytingum, en þau hafa bara minna vægi þar heldur en hér á landi. Nægir þar að nefna stöðu kvennalistans hér á landi í gegnum árin."

Lúðvík segir að nú sé hinsvegar eitthvað farið að þokast í þessari baráttu en dómsmálaráðuneytið ætlar að endurskoða meðlagsgreiðslukerfið frá grunni. „Það fylgdi með frá ráðuneytinu sú viðrkenning í kjölfar skýrslu um meðlagsgreiðslukerfið að það hefði ekki „þróast" í samræmi við kerfi annarra landa," segir Lúðvík og bætir við að dómsmálaráðneytið hafi einnig gefið út að breyta eigi barnalögum.

Félag foreldra um jafnrétti hefur á þessum degi undanfarin tvö ár haldið ráðstefnu um þessi mál sem hefur verið ágætlega fjölsótt. „Hinsvegar hélt félagsmálaráðuneytið mjög keimlíka ráðstefnu um réttindi barna í þessari fjölskyldustöðu fyrir um fimm vikum síðan. Einnig töldum við að ástandið í þjóðfélaginu sé þannig núna að þetta sé kannski ekki alveg mál málanna," segir Lúðvík.

Félagið birti þó heilsíðu í morgun þar sem minnt er á daginn og þá baráttu sem Lúðvík og félagar hafa staðið í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×