Innlent

Íslendingum ekki settur tímafrestur

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, segir að íslenskum stjórnvöldum hafi ekki verið settur frestur til miðnættis til þess að finna lausn á Icesave deilunni. Unnið sé hörðum höndum að lausn deilunnar en það hafi ekki verið settur slíkur tímafrestur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði í Íslandi í dag að verið væri að vinna að lausn málsins og að hún vonaðist til þess að svo yrði hægt að afgreiða lánsumsókn Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í næstu viku.

Hún sagði að Íslendingar yrðu að hafa bakstuðning í Evrópu til þess að klára þau mál sem þurfi að ljúka í efnahagsmálunum. Hún sagði jafnframt ljóst að Bretar og Hollendingar legðu ofurkapp á það að ljúka Icesave málinu. Öll ESB ríkin og líka Norðurlöndin líti svo á að það sé svo mikið í húfi vegna málsins að það sé ekki hægt að taka þeirri áhættu sem því sé samfara. Það væri ekki vilji til þess að gildissvið reglugerðar Evrópusambandsins sem gildi um innistæðureikninga sé dregin í efa. Litið væri svo á að það gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir allt fjármálakerfið í Evrópu.

Ingibjörg Sólrún sagði að brúttóskuld Íslendinga vegna Icesave reikninganna væri 640 milljarðar króna, upphæðin yrði 100 - 300 milljarðar þegar búið væri að gera upp eignir Landsbankans.



 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×