Lífið

Gordon Ramsey óttaðist um líf sitt við lundaveiðar

Kokkurinn orðljóti, Gordon Ramsey, komst í hann krappann í Íslandsför sinni um daginn, þegar hann féll ofan af kletti niður í ískaldan sjó og drukknaði næstum því.

Ramsey var hér að vinna að þætti fyrir Channel 4 sjónvarpsstöðina, þar sem hann ætlaði að veiða og elda lunda. En það gekk ekki þrautalaust að koma lundanum á diskinn. Í breska dagblaðinu The Sun er sagt frá því að þegar kokkurinn var að príla niður klett hafi hann runnið til og húrrað fram af rúmlega áttatíu metra háum kletti. Ramsey lenti í ísköldum sjó fyrir neðan og leist víst ekki á blikuna.

„Ég hélt ég væri farinn. Skórnir mínir og pollabuxurnar drógu mig niður. Ég er frábær sundmaður, en ég komst ekki upp á yfirborðið. Ég sturlaðist af hræðslu og lungun á mér byrjuðu að fyllast af vatni," er haft eftir kokkinum, sem náði þó fyrir rest að losa sig úr skónum og komast upp á yfirborðið. Tökuliðið, sem hafði verið farið að óttast um kokkinn eftir 45 sekúndur í kafi, kastaði til hans kaðli og dró hann upp.

Þetta voru ekki einu hremmingarnar sem Ramsey lenti í við veiðarnar. Einn lundinn beit hann í nefið, með þeim afleiðingum að sauma þurfti þrjú spor.

En lundinn var lamb að leika sér við í samanburði við eiginkonuna sem beið hans heima. „Ég þorði ekki að segja henni frá þessu í fyrstu. En hún vissi að eitthvað hafði gerst. Hún varð alveg brjáluð," sagði Ramsey, og bætti við að óvíst væri hvort eiginkonan leyfði sér að mynda næstu þáttaröð sína - Dangerous food for boys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.