Erlent

Blóðug átök í Mógadisjú

MYND/AP

Að minnsta kosti fimmtán hafa fallið í blóðugum átökum í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu í dag. Uppreisnarmenn réðust til inngöngu í borgina í dögun og kom þá til átaka þeirra við stjórnarhermenn.

Vitni segja lík liggja sem hráviði á götum borgarinnar. Árásin kemur eftir að tilkynnt var að eþíópískir hermenn væru að undirbúa brottför sína frá Sómalíu eftir að stjórnvöld og nokkrir hópar uppreisnarmanna sömdu um frið á dögunum. Fréttamaður BBC segir hins vegar ekkert benda til þess að herlið Eþíópíúmanna sé á förum.

Hermennirnir voru sendir til Sómalíu fyrir tveimur árum til að aðstoða bráðabirgðastjórn landsins við að hrekja burt íslamista sem höfðu tekið völdin í Mógadísjú. Abdullahi Yusuf, forseti Sómalíu, viðurkenndi í síðustu viku að Ííslamistar hefðu nú náð á sitt vald nær öllum suðurhluta landsins.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær einróma ályktun sem felur í sér refsiaðgerðir gegn þeim sem reyni að stefna frið í Sómalíu í hættu eða trufla flutning á hjálpargögnum til flóttamanna. Hægt verður að frysta eignir þeirra og meina þeim að ferðast milli landa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×