Innlent

Sækist eftir að stýra Kaupþingi aftur

MYND/Rósa

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, segist munu sækjast eftir því að vera áfram í starfinu, en formaður fjárlaganefndar Alþingis telur að bankastjórar nýju ríkisbankanna hljóti að vera ráðnir tímabundið þar sem störfin hafi ekki verið auglýst enn.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að hefð sé fyrir því að auglýsa æðstu stöður hjá ríkinu, það hafi ekki enn verið gert varðandi bankastjórastöður hjá nýju ríkisbönkunum og því megi ætla að núverandi bankastjórar séu ráðnir tímabundið. Hann segir það hins vegar vera bankaráðin sem taka um það ákvörðun hvort stöðurnar verða auglýstar.

Þau bankaráð sem nú sitja eru hins vegar tímabundin og fram kom í máli Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra að ný bankaráð yrðu kynnt til sögunnar á morgun.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, telur mikilvægt að nýtt bankaráð taki til starfa sem fyrst og hann mun sækjast eftir því að verða áfam bankastjóri verði starfið auglýst.

En það virðist óljóst hver ráðningatími bankastjóranna er, meira að segja fjármálaráðherra er ekki viss. Það kom fram í umræðum á Alþingi í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×