Enski boltinn

Platini viðurkennir að hann hafi verið of grimmur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, viðurkennir að hann hafi verið of grimmur í garð Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.

Platini sagði að Wenger hugsaði meira um viðskiptahlið knattspyrnunnar fremur en íþróttina sjálfa og lét ýmislegt misjafnt flakka um Wenger.

Hann sagði í samtali við staðarblað í Bordeaux þar sem framkvæmdarstjórn UEFA mun funda á næstu dögum að faðir hans hefði skammað hann fyrir viðtalið.

Aldo Platini var einn þeirra sem starfaði með Wenger hjá Nancy þegar að sá síðarnefndi var að hefja þjálfaraferil sinn.

„Ég hef verið of grimmur í garð Arsene. Faðir minn skammaði mig en það var hann sem kom honum af stað hjá Nancy."

Wenger hefur áður sagt að hann skilji ekkert í gagnrýni Platini en sá síðarnefndi sagðist standa við sína gagnrýni.

„Þegar ég er að tala um viðskiptahliðina þá meina ég að félög eru að ná í leikmenn þegar þeir eru þrettán eða fjórtán ára gamlir. Ég þoli það ekki," sagði Platini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×