Innlent

Sendiráðum lokað og sparað í varnar- og þróunarsamvinnumálum

Sendiráðum Íslands í Pretoríu og Róm verður lokað á næsta ári og sömuleiðis sendiskrifstofu fastanefndar Íslands við Evrópuráðið í Strassborg ásamt einni af sendiskrifstofum Þróunarsamvinnustofnunar. Þetta er liður í sparnaðaraðgerðum utanríkisráðuneytisins vegna efnahagskreppunnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti þessar tillögur á blaðamannafundi í dag. Samtals nemur sparnaður ráðuneytisins um 2,2 milljörðum króna eða um fimmtungi miðað við fjárlagafrumvarp næsta árs. Auk lokunar áðurnefndra sendiskrifstofa á næsta ári stendur til að loka fleirum árið 2010. Þá mun ráðuneytið skoða sérstaklega sparnað í húsnæðiskosti sendiskrifstofa og er stefnt að því að skila ríkissjóði söluhagnaði frá 500 milljónir til milljarð á næsta ári. Tveir sendiherrar láta af embættum í upphafi árs 2009 og fyrir liggur að aðrir fjórir láti af embætti síðar á árinu. Veruleg fækkun verður því á næsta ári í hópi sendiherra.

Útgjöld til varnarmála dregin saman

Þá verða útgjöld til varnarmála lækkuð um 257 milljónir króna á næsta ári og útgjöld til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu verða dregin saman tímabundið þótt áfram verði stefnt að því að ná markmiðum alþjóðasamfélagsins til lengri tíma litið. Með niðurskurðinum lækkar kostnaður vegna þróunarsamvinnu um ríflega 1,6 milljarða króna. Framlag til þróunarsamvinnu verður 0,24 prósent af þjóðarframleiðslu í stað 0,35 prósent eins og stefnt hafði verið að.

Enn fremur verður þátttaka Íslands í alþjóðlegum verkefnum endurmetin. Má sem dæmi nefna þátttöku Íslands í heimssýningunni í Sjanghæ árið 2011. Kostnaður vegna hennar verður um 30 prósent af því sem upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og njótum við velvildar Kínverja sem auðveldar þátttöku í sýningunni.

„Þá hefur skipulag utanríkisráðuneytisins verið endurskoðað og öðlast breytingarnar gildi frá og með deginum í dag. Skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra hafa verið sameinaðar í því skyni að styrkja yfirstjórn ráðuneytisins og ná fram frekari hagkvæmni í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Skrifstofan heyrir undir ráðuneytisstjóra. Kristínu A. Árnadóttur sem skipuð hefur verið sendiherra hefur verið falið að stýra hinni nýju skrifstofu yfirstjórnar," segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×