Innlent

Þorgerður telur sig ekki vanhæfa í bankamálum

MYND/GVA

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra telur sig ekki hafa verið vanhæfa til að fjalla um yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum þremur og ákvörðunum um nýju bankana þar sem ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald heldur pólitískur samráðsvettvangur.

Þetta kom fram í svari hennar við fyrirpsurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Kristinn benti á stjórnsýslulög fjölluðu um hæfi og vanhæfi manna og sagði að aðili tendist vanhæfur ef maki tengdist málinu, en eiginmaður menntamálaráðherra er einn af stjórnendum Kaupþings.

Sagði Kristinn augljóst að engu hefði verið ráðið til lykta í bankamálinu án aðkomu varaformanns Sjálfstæðisflokksins en komið hefði í ljóst að hún tengdist Kaupþingi fjárhagslega og vanalega væri það nægilegt til að menn teldust vanhæfir. Sagði Kristinn enn fremur að Þorgerður Katrín hefði ekki greint frá aðkomu sinni að því að Kaupþing einn banka hefði fengið lán frá stjórnvöldum.

Menntamálaráðherra svaraði því til að hún færi ekki með málefni banka heldur viðskiptaráðherra. Hún sagði enn fremur að að sjálfsögðu hefðu neyðarlögin verið rædd í ríkisstjórn og almenn samstaða hefði verið um að setja þau.

Þá sagði hún um setu sína í ríkisstjórn að ríkisstjórnin færi ekki með stjórnsýsluvald og hefði því ekki tekið ákvarðanir um þau mál sem Kristinn hefði spurt um. Ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald heldur pólistískur samráðsvettvangur og því ættu reglur um hæfi ekki við hana sem menntamálaráðherra. Sú ákvörðun að yfirtaka bankanna hefði verið í höndum sjálfstæðrar stofnunar, Fjármálaeftirlitsins, og önnur sjálfstæð stofnun, Seðlabankinn, hefði ákveðið að lána Kaupþingi fé, einum banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×