Innlent

Aukið framboð af leiguhúsnæði

Húsaleigumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum að undanförnu. Í smáauglýsingadálkum dagblaðanna eru nú margar íbúðir boðnar til leigu en fyrir ekki svo löngu síðan var framboðið nánast ekkert.

Halldór Jensson viðskiptastjóri hjá Rentus leigumiðlun segir markaðinn nú ágætan. „Það hefur verið að aukast aðeins framboðið á íbúðarhúsnæði en eftirspurn er ágæt," segir Halldór, en bætir við að verðið hafi enn sem komið er ekki breyst mikið. „Það kannski aðeins að síga niður, en það er ekkert fall."

Frá árinu 1997 hefur meðalverð á húsaleigu - á landinu öllu - hækkað um rúmlega helming. Árið 1997 var fermetrinn á 811 krónur en í mars á þessu ári var hann kominn í tæpar átján hundruð krónur.

Hækkunin er þó mun meiri ef einungis er miðað við höfuðborgarsvæðið en þar kostar fermetrinn nú rúmlega tvö þúsund krónur.

Mikið er af ónotuðu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og segir Halldór það skapa vissa óvissu á markaðinum.

„Markaðurinn er frekar óljós eins og staðan er í dag. Það er mikið til af húsnæði sem gæti hugsanlega verið að koma inn á leigumarkaðinn. Það veltur á því hvernig þetta húsnæði kemur inn. Hvort það kemur allt í einu, eða hversu hratt það kemur," segir Halldór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×