Innlent

Verðbólgan fer illa með leikskólakennara

Árslaun leikskólakennara eftir skatta hrykkju ekki til að borga verðbætur síðustu tólf mánaða á 20 milljóna króna fasteignaláni. Átján ár eru síðan verðbólga á Íslandi hefur komist í aðrar eins hæðir.

Það er sennilega fátt sem dregur eins móðinn úr skuldurum eins og verðbólgan sem enn er að hækka. Því jafnvel þótt yfirvöldum takist í náinni framtíð að koma böndum á verðbólguna - eru verðbæturnar á verðtryggðu húsnæðislánunum okkar komnar til að vera, nema svo ólíklega fari að hér verði verðhjöðnun. Sú staða er vart yfirvofandi þegar verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% - og bankastjórn hans gerir sér ekki von um að ná því markmiði fyrr en eftir tvö ár.

Verðbólgan blasir við okkur nánast hvar sem við drögum upp greiðslukortin. En þar sem drjúgur hluti landsmanna er í greiðsluþjónustu bankanna er óvíst að áhrif verðbólgunnar á höfuðstól fasteignalána skeri marga í augu. Tökum dæmi.

Leikskólakennari á fertugsaldri tók tuttugu milljón króna verðtryggt íslenskt krónulán fyrir einu ári til að kaupa íbúð. Nú er verðbólgan komin í 13,6% og á þessum tólf mánuðum hefur höfuðstóllinn af láni kennarans hækkað um tvær milljónir sjöhundruð og tuttugu þúsund krónur. Dæmigerður leikskólakennari á þessum aldri í stöðu deildarstjóra er með rúm 270 þúsund krónur í mánaðarlaun sem gerir rösk 200 þúsund krónur eftir skatta.

Ef kennarinn gerði ekkert annað við sín útborguðu laun en að borga niður höfuðstólinn - þá tæki það hann þrettán og hálfan mánuð - að greiða niður verðbólguna sem lagðist ofan á höfuðstólinn á tólf mánuðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×