Samkvæmt nýjustu könnun Capacent um sjónvarpsáhorf kemur fram að undanúrslitaþátturinn í Bandinu hans Bubba er með 21,7% uppsafnað meðaláhorf í aldurshópnum 18-49 ára. Bæði frum- og endursýningar eru teknar með í þeim útreikningum.
Það er hinsvegar Spaugstofan sem trónir á toppnum með 42.8% uppsafnað meðaláhorf og lokaþátturinn af Mannaveiðum var með 36,7% uppsafnað meðaláhorf. Endursýning á þættinum fór fram á mánudag eftir að könnun lauk og er hún því ekki inni í þessari tölu. American Idol á Stöð 2 er með 21.7% uppsafnað meðaláhorf.
Annar þáttur Svalbarða sem er nýr spjallþáttur með Þorsteini Guðmundssyni á Skjá einum mælist með 14,0% uppsafnað meðaláhorf í þessum aldursflokki og Innlit útlit með 12,9% meðaláhorf.
Þá er Sjálfstætt fólk Jóns Ársæls með 13,8% uppsafnað meðaláhorf og Hæðin er í 15,3%.
Frá ritstjóra:
Í frétt sem birtist hér fyrr í dag var því haldið fram að Bandið hans Bubba væri með meira uppsafnað meðaláhorf en Mannaveiðar. Það er rangt og er beðist velvirðingar á þeim mistökum.