Innlent

Ætlum að verja fjölskyldurnar í borginni

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir

Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn fyrr í dag með öllum greiddum atkvæðum. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir samstöðuna sem náðist um málið í borgarstjórn skipta miklu máli.

„Við lögðum mikla áherslu á að meiri- og minnihluti næði samstöðu um þetta verkefni og það kom okkur því í raun ekki á óvart að allir borgarfulltrúarnir greiddu áætluninni atkvæði. Þetta er okkar vörn fyrir borgarbúa og það á að vera aðalatriðið, allt dægurþras í pólitík og annað verður að bíða," segir Hanna Birna.

Í aðgerðaráætluninni segir að þrátt fyrir þrengri fjárhagsstöðu verði því að svo stöddu ekki mætt með hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu. Í aðgerðaráætlunin er kveðið á um að aukins aðhalds verði gætt í innkaupum og stefnt að 15% sparnaði í þeim á næstu mánuðum og árum.

Aðspurð hvort þessi 15% sparnaður sé mögulegur eins og staðan sé í þjóðfélaginu í dag viðurkennir Hanna Birna að þetta sé metnaðarfullt markmið en nauðsynlegt. „Við teljum þetta hinsvegar raunhæft markmið."

Ekki er von á hækkunum á gjaldskrám fyrir grunnþjónustu eins og fyrr segir. „Við segjum að svo stöddu sé ekki von á hækkunum og við ætlum að verja borgarbúa og fjölskyldurnar í borginni. Þetta er okkar innlegg en þetta er stór biti fyrir borgarsjóð. Við teljum hinsvegar að hann geti tekið þennan bita, og það er mikilvægt að hann geri það."






Tengdar fréttir

Gjaldskrár óbreyttar í Reykjavík

Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn fyrr í dag með öllum greiddum atkvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×