Erlent

Leiðtogar Kóreu semja um frið

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Roh Moo-hyun forseti Suður Kóreu og Kim Yong-il leiðtogi Norður Kóreu eftir samkomulagið um frið og efnahagslegar umbætur í Pyongyang í morgun.
Roh Moo-hyun forseti Suður Kóreu og Kim Yong-il leiðtogi Norður Kóreu eftir samkomulagið um frið og efnahagslegar umbætur í Pyongyang í morgun. MYND/AFP

Roh Moo-hyun forseti Suður Kóreu og Kim Yong-il leiðtogi Norður Kóreu undirrituðu í dag friðaryfirlýsingu eftir þriggja daga sögulegan fund í Pyongyang í Norður Kóreu. Þeir fóru fram á alþjóðlegar viðræður um milliríkjasamning sem koma á í stað vopnahlésins, sem batt enda á Kóreustríðið árið 1953.

Í gær samþykkti Norður Kórea einnig að falla frá kjarnorkuáætlun landsins sem valdið hefur miklum taugatitringi á alþjóðavísu. Sérstök nefnd sem fjallaði um málið staðfesti að fylgt yrði áætlun um að aftengja kjarnorkuframleiðslustöðvar samkvæmt tímatöflu sem yfirvöld samþykktu.

Leiðtogarnir fögnuðu samkomulaginu með handabandi og skál eftir undirritun yfirlýsingarinnar sem er í átta liðum. Kim Yong-Il notaði tækifærið og blés á getgátur í fjölmiðlum um slæma heilsu sína. Hann væri hvorki með sykursýki né hjartveikur.

Leiðtogar ríkjanna tveggja hafa einungis hist tvisvar sinnum á síðustu 50 árum, síðast árið 2000. Roh forseti sagði við fjölmiðla fyrir fundinn að markmið hans væri að ræða frið á milli ríkjanna og þróun efnahags.

Friðaryfirlýsing

Í friðaryfirlýsingunni segir að bæði löndin séu sammála um að enda núverandi vopnahlésástand og byggja upp varanlegt friðarferli. Til þess þurfa aðildarlönd vopnahléssamningsins frá 1953, Bandaríkin, Kína og Norður Kórea, að koma saman. Suður Kórea undirritaði ekki samninginn á sínum tíma og er því tæknilega enn í stríði við Norður Kóreu.

Spenna vegna hernaðar verði milduð og deilur við samningagerð og samskipti verði útkljáðar. Komið verði á sameiginlegum fiskveiðisvæðum við umdeild mörk landanna vestan við Kóreuskaga. Þetta er gert til að forðast óvænt vopnuð átök. Fundað verði í Pyongyang í nóvember til að finna leiðir til að efla efnahagslega samvinnu.

Suður Kóreubúi fylgist með fréttum af fyrri leiðtogafundi ríkjanna þegar Kim Jong-il og Roh Moo-hyun hittust árið 2000.

Vöruflutningar yfir landamærin munu hefjast aftur samkvæmt yfirlýsingunni, eftir hálfrar aldar hlé.

Í samningnum er gert ráð fyrir reglulegum fundum á milli landanna tveggja, þó engar tímasetningar hafi verið settar í þeim efnum.

Samvinna verði efld í tengslum við tungumál, menntun, tækni, menningu, íþróttir og í félagsmálum. Opnaður verði vegur á milli Seoul og Paekdu fjalls til að leyfa sunnanmönnum að heimsækja fjallið.

Þá verða fleiri fundir skipulagðir til að koma á endurfundum á milli fjölskyldumeðlima sem voru aðskildir við skiptingu skagans.

Fréttaskýrandi BBC varar þó við of mikilli bjartsýni eftir fundinn nú þrátt fyrir sögulegan samning. Svipuð bjartsýni hafi einkennt leiðtogafundinn árið 2000 en mörgum finnst lítið hafa breyst síðan þá.

Kjarnorkusamningurinn

Fulltrúar í sex landa í nefnd um kjarnorkuáform Norðanmanna skýrðu frá því í gær að Pyongyang hefði opinberlega samþykkt að aftengja kjarnakljúfinn í Yongbyon ásamt öðrum kjarnorkusvæðum og að upplýsa um alla þætti kjarnorkuáætlunarinnar fyrir lok þessa árs.

Yongbyon er stærsti kjarnakljúfur Norður Kóreu. Honum var lokað fyrr á árinu í skiptum fyrir aðstoð en það var fyrsti hluti samningsins.

Lið sérfræðinga með Bandaríkjamenn í fararbroddi fer til Norður Kóreu á næstu tveimur vikum til að fylgja samningnum eftir.

Næsta áríðandi skref samningsins, þar sem Norðanmenn framselja kjarnorkubirgðir sínar, er áformað á næsta ári.

Viðbrögð við samkomulaginu
Suður Kóreumenn hafa gjarnan krafist þess að Norður Kórea verði beitt refsiaðgerðum.
George Bush Bandaríkjaforseti hefur fagnað samningnum. Japanar sem eiga fulltrúa í sex-landa nefndinni, eru þó varkárir í yfirlýsingum, en í dag samþykkti stjórnarflokkur japanska þingsins framlengingu á viðskiptaþvingunum við Norður Kóreu vegna lítils árangurs í samningaviðræðum vegna japanskra ríkisborgara sem rænt var af Pyongyang. Kjarnorkusprengjan

Norður Kórea gerði sína fyrstu kjarnorkutilraun í október árið 2006. Hún vakti hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins og var fordæmd af flestum ríkjum heims.

Christopher Hill fulltrúi Bandaríkjamanna í samninganefnd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna málsins sagði meðal annars að Norður Kórea yrði að velja á milli þess að eiga kjarnavopn, eða framtíð. Það gæti ekki átt bæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×