Innlent

Krefjast þess að fatlaðir fái greidd umsamin laun

MYND/ÁP

Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að kjör fatlaðra ungmenna sem taka þátt í samstarfsverkefni verði tafarlaust lagfærð í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag um vinnuframlag. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var skýrt frá því að ungmennin fái ekki greidd laun í samræmi við atvinnuþáttöku. Um leið og Þroskahjálp fagnar því að fötluðum umgmennum sé gert kleift að vinna yfir sumartímann mótmæla samtökin því harðlega að þeim sé ekki greitt sanngjarnt kaup.

Í tilkynningu frá Þroskahjálp kemur einnig fram að þau hvetja Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík til að gera ráðningarsamninga við skjólstæðinga sína í samvinnu við viðkomandi verkalýðsfélög og „tryggja þannig betur hag viðkomandi einstaklinga." Þá telja samtökin eðlilegt að þau fyrirtæki sem ungmennin starfa hjá greiði laun viðkomandi starfsmanns og viðurkenni þannig vinnuframlag þeirra.

Samtökin segja að skýringin sem gefin hafi fyrir því að ungmenninn fengju ekki borguð umsamin laun hafi verið sú að ekki hefði fengist nægilegt fjármagn til verkefnisins og að fjöldi umsækjanda hefði verið meiri en gert var ráð fyrir. „Verkefnið felst í því að ungu fólki með þroskahömlun er gert kleift að vinna á almennum vinnumarkaði með þeim stuðningi sem þau þarfnast. Reynslan í sumar sýnir að ungmennin eru vinnusöm og samviskusöm og hafa notið þess mjög að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr."

Þá segir að með því að standa ekki við launasamninga felist að gróflega sé brotið á þeim enda almennt viðmið í samfélaginu að greitt skuli fyrir þá vinnu sem innt er af hendi. „Annað er einfaldlega óheiðarlegt. Í umræddum gjörningi felast afar neikvæð skilaboð til fatlaðra ungmenna þar sem fram kemur að það er í lagi að standa ekki við gerða samninga og vinnuframlag þeirra er lítils metið. Þá felast í gjörningnum þau skilaboð til samfélagsins að fatlaðir séu minna metnir en aðrir og að það sé í lagi að mismuna þeim. Slík skilaboð út í samfélag okkar frá þeim opinbera aðila sem ábyrgur er fyrir þjónustu við fatlaða eru afar alvarleg og algjörlega óásættanleg."

Að auki segja samtökin að slík skilaboð séu ekki í „samræmi við það markmið laga um málefni fatlaðra að fatlaðir skuli búa við jafnrétti og sambærileg lífskjör og aðrir landsmenn né í anda þeirrar hugmyndafræði og laga sem Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra í Reykjavík á að vinna eftir," segir ennfremur í tilkynningu samtakanna.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×