Innlent

Tónleikar á Ísafirði líklega ekki fyrr en á næsta starfsári Sinfó

Vladimir Ashkenazy stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Vladimir Ashkenazy stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands. MYND/Pjetur

Tónleikar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hugðist halda á Ísafirði í gær undir stjórn Vladimirs Ashkenazys verða að líkindum ekki fyrr en á næsta starfsári sveitarinnar. Eins og greint var frá í fréttum í gær þurfti að aflýsa tónleikunum þar sem hvorki var hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli né Þingeyrarflugvelli vegna veðurs.

Að sögn Sváfnis Sigurðarsonar, upplýsingafulltrúa Sinfóníuhljómsveitarinnar, var reynt til þrautar að lenda flugvélunum og sveimuðu þær í nokkurn tíma yfir flugvöllunum. Veðurguðirnir hafi hins vegar haft betur. Reynt verði að koma tónleikunum inn á dagskrá næsta starfsárs en Vladimir Ashkenazy kemur einu sinni á ári og stjórnar tónleikum Sinfóníunnar.

Sváfnir segir að mikil eftirvænting hafi verið vegna tónleikanna vestra bæði hjá heimamönnum og tónlistarfólkinu. Undir það taka aðstandendur Tónlistarskóla Ísafjarðar og segir á heimasíðu skólans að það hafi verið gífurleg vonbrigði að tónlistarfólkið hafi ekki komist vestur. Mikill undirbúningur hafði verið fyrir tónleikana og var búið að koma hljóðfærunum fyrir á tónleikastaðnum. Þá hafi sérstakur flygilflutningamaður stjórnað sjö manna hópi sem flutti nýjan Steinway-flygil Tónlistarfélagsins upp á Torfnes þar sem halda átti tónleikana.

Vladimir Ashkenazy hélt af landi brott í morgun en hann er væntanlegur aftur hingað til lands á næsta starfsári Sinfóníunnar til að stjórna tónleikum eins og fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×