Enski boltinn

Man City að krækja í Mascherano?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mascherano í baráttu við Robbie Keane, leikmann Tottenham.
Mascherano í baráttu við Robbie Keane, leikmann Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Breska dagblaðið Independent segir í dag að Manchester City sé að undirbúa sautján milljóna punda tilboð í Javier Mascherano.

Mikil óvissa er þessa dagana um félagaskiptamál Liverpool en Mascherano er á láni hjá Liverpool frá West Ham. Samningurinn rennur út í vor en Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur lagt mikla áherslu á að semja við kappann.

Eigendur Liverpool, Tom Hicks og George Gillett, virðast vera tregir til að ganga til samningaborðsins og það mun Manchester City ætla að færa sér í nyt.

Eigandi City, Thaksin Shinawatra, hefur sagt að hann ætli að opna budduna svo að stjóri liðsins, Sven-Göran Eriksson, geti fjárfest í nokkrum leikmönnum þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar næstkomandi.

Eriksson mun vilja fá að minnsta kosti einn sóknarmann, jafnvel tvo, miðvallarleikmann og jafnvel markvörð.

Þeir sóknarmenn sem hafa helst verið orðaðir við City eru Afonso Alves, Peter Crough, Nicolas Anelka og Obafemi Martins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×