Innlent

Sýknaður af ákæru um líkamsárás

MYND/Ingólfur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag karlmann af ákæru um líkamsárás við Glaumbar í fyrrasumar.

Manninum var gefið að sök að hafa slegið annan karlmann í andlitið þannig að hann féll í götuna og gervitennur hans brotnuðu, hann hlaut heilahristing og áverka á höfði.

Til átaka kom á milli mannanna eftir snörp orðaskipti og viðurkenndi ákærði að hafa slegið fórnarlamb sitt en sagðist ekki hafa valdið ofangreindum áverkum þar sem högg hans hefði verið hálfgert vindhögg.

Vitni báru fyrir dómi að fjöldi fólks hefði ráðist á fórnarlambið eftir átök þess og hins ákærða og að hópurinn hefði sparkað í fórnarlambið liggjandi. Taldi dómurinn því ekki hægt að útiloka að fórnarlambið hefði hlotið áverkana við þessa hópárás, en ekkert vitnanna í málinu sagði ákærða hafa sparkað í fórnarlambið. Komst dómurinn því að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að sýkna manninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×