Innlent

FME rýnir í svör Orkuveitunnar vegna REI

Fjármálaeftirlitið rýnir nú í svör Orkuveitu Reykjavíkur en grunur leikur á að Orkuveitan sé að fara á skjön við lög um verðbréfaviðskipti og óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum þar að lútandi fyrir helgi.

Fjármálaeftirlitinu barst svarbréf í gær og eru sérfræðingar þess að fara yfir málið. Grunur leikur á að Orkuveitan hafi reynt að fara á skjön við lög um verðbréfaviðskipti.

Þegar seld eru hlutabréf til fleiri en 100 manns í fyrirtæki sem ekki er skráð á markað þá ber fyrirtækjum að leggja fram útboðslýsingu með nákvæmum upplýsingum um félagið, eignir þess og skuldir, fjárhagslega stöðu og framtíðaráform.

Lögfræðingar Orkuveitunnar sögðu fyrir helgi að þeir teldu sig geta komist hjá þessu með því að stofna félag starfsmanna sem myndi kaupa bréfin í REI. Fjármálaeftirlitið lítur hins vegar svo á að þrátt fyrir að stofnað sé slíkt félag þá beri fyrirtækinu að leggja fram útboðslýsingu enda séu hagsmunir starfsmanna í húfi.

Ef Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að lög hafi verið brotin mun það krefjast þess að útboðsgögnin verði lögð fram. Þá hefur eftirlitið heimild til að beita stjórnvaldssektum nú eða beina málum til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×