Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað að byggingasvæði í Garðabæ um klukkan ellefu í morgun vegna gruns um miltisbrandssmit.
Grafa á byggingasvæði rétt fyrir ofan Lækjarfit í Garðabæ kom niður á hræ af dýri í gær og var haft samband við yfirdýralæknir. Hann óskaði síðan eftir aðstoð slökkviliðsins í morgun við að fjarlægja hræið vegna gruns um miltisbrandssmit .
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins vinna eiturefnakafarar nú að því að fjarlægja hræið og hefur svæðið verið girt af. Hræið verður síðan flutt til Keflavíkur þar sem það verður brennt í sérstökum ofni.
Að sögn Halldórs Runólfssonar, yfirdýralæknis, er vitað að í kringum 1940 hafi nautgripir á bóndabæ sem stóð á þessum slóðum drepist af völdum miltisbrands. Því hafi verið ákveðið að gæta fyllstu varúðar þegar tilkynnt var um hræið í gær. „Þetta getur fyrst og fremst verið hættulegt öðrum dýrum. En fólk getur smitast og þess vegna var ákveðið að kalla til eiturefnadeild slökkviliðsins," sagði Halldór í samtali við Vísi.