Innlent

Hlé á viðræðum um myndun stjórnar meðan ákveðnum málum er lent

Formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar tilkynntu á tröppum Ráðherrabústaðarins nú síðdegis að þeir hefðu gert hlé á viðræðum um ríkisstjórnarmyndun. Ekki er ákveðið hvenær næsti fundur verður. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir hléð gert vegna þess að ákveðnum málum þurfi að lenda.

Stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar var framhaldið í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina í dag eftir langa fundi á Þingvöllum um helgina. Forystumenn flokkanna funduðu til klukkan ellefu í gærkvöldi í þjóðgarðinum og voru þá lengst af fjórir fulltrúar frá hvorum flokki. Í dag voru það hins vegar aðeins tveir sem mættu fyrir hönd hvors flokks, þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokk og þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson fyrir Samfylkinguna. Fundurinn hófst með sameiginlegum hádegisverði klukkan hálfeitt. Það voru svo tæplega fjórum tímum síðar, þegar klukkan var tíu mínútur gengin í fimm, sem formennirnir gengu niður tröppur Ráðherrabústaðarins. og skýrðu frá því að hlé hefði verið gert á viðræðunum þar sem lenda þyrfti ákveðnum málum. Þau vildu hins vegar ekki skýra frá því hvaða mál þetta væru. Ingibjörg Sólrún sagði fyrr í dag að Samfylkingarfólk myndi nota kvöldið til að kveðja fráfarandi þingmenn. Þótt ekkert sé ákveðið um næsta viðræðufund flokkanna má fastlega gera ráð fyrir að fundað verði á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×