Innlent

Kambur þegar selt hluta aflaheimildanna

Eigandi Kambs á Flateyri er þegar búinn að selja stóran hlut aflaheimilda sinna út af Vestfjarðasvæðinu. Bæjarstjórinn á Ísafirði reynir nú að stuðla að því að nokkrir útgerðaraðilar á norðanverðum Vestfjörðum kaupi það sem eftir er af heimildunum.

Kambur á Flateyri, sem tilheyrir Ísafjarðarbæ, átti kvóta upp á 2.700 tonn. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er fyrirtækið nú þegar búið að selja hluta af þessum aflaheimildum en ekki náðist í Hinrik Kristjánsson framkvæmdastjóra Kambs til að fá það staðfest.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði segist ekki vita hvort búið sé að selja eitthvað af aflaheimildunum, það verði að spyrja forráðamenn Kambs að því. Nú sé unnið að því að útgerðarfélög á svæðinu geti keypt þessar heimildi.

Halldór segir að bærinn vinni eftir þríþættri áætlun til að bregðast við þessari stöðu. Í fyrsta lagi sé reynt að bjarga því sem bjargað verði með því að reyna að stuðla að því að útgerðir á norðanverðum Vestfjörðum geti keypt heimildirnar. Þá hafi verið stofnaður teymishópur til að halda utan um þá 120 einstaklinga sem nú eru að missa vinnuna. Það miði að því að koma á námskeiðum og átaksverkefnum til að útvega fólkinu eitthvað að gera. Það verði að halda fólkinu í bænum.

Ein leið til til að taka á vandanum gæti verið að Vestfirðir fengju úthlutað meiri byggðakvóta. Halldór segir að fyrst þurfi að koma í ljós hvað komi í hlut svæðisins við næstu úthlutun byggðakvóta.

Halldór telur að reyna megi að fara svipaða leið og farin var á Þingeyri á sínum tíma þegar byggðakvóta var beint þangað til útgerðarfélagsins Vísis, sem þá hafi lagt til kvóta á móti.

Halldór segir að beðið sé eftir nýrri ríkisstjórn til að heyra hvað hún hafi að segja um málið. Einnig þurfi að finna verkefni fyrir vinnsluhúsin á Flateyri, þar sem það myndi nýtast starfsfólkinu best vegna sérhæfðar þekkingar þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×