Innlent

Sýknaður af ákæru um að hafa útlendinga ólöglega í vinnu

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag karlmann af því að hafa haft þrjá Pólverja í byggingarvinnu hjá sér við nýtt hótel án þess að þeir hefðu tilskilin atvinnuleyfi.

Upp komst um málið þegar lögregla stöðvaði bíl við umferðareftirlit á Skeiða- og Hrunamannavegi í mars árið 2005. Í bílnum var einn Pólverjanna og við nánari eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að tveir aðrir voru að störfum við hótelið.

Pólverjarnir þrír voru dæmdir fyrir að vinna án tilskilinna atvinnuleyfa í héraðsdómi en Hæstiréttur ómerkti þann dóm og vísaði aftur heim í hérað. Mennirnir fóru af landi brott og er enn ódæmt í máli þeirra.

Maðurinn sem ákærður var fyrir að hafa þá í vinnu neitaði sök og sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um að þeir væru að vinna við byggingu hótelsins þar sem hann hefði verið í endurhæfingu á þeim tíma sem honum var gefið að sök að hafa haft þá í vinnu. Sagði hann þá hafa fengið að gista hjá sér og tekið það upp hjá sjálfum sér að vinna.

Þótti dómnum út frá framburði vitna ekki sannað hvort til vinnusambands hefði stofnast milli ákærða og Pólverjanna og í ljósi neitunar ákærða taldi dómurinn ekki komna fram lögfulla sönnun um að hann hefði brotið af sér. Var hann því sýknaður.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa kastað GSM-síma í lögreglumann við yfirheyrslur en þeim ákærulið var vísað frá á þeim grundvelli að ekki hefði verið getið neinna afleiðinga af brotinu í ákærunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×