Innlent

Hvetja Paul Watson til að hætta við áform sín

Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd.
Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd. MYND/Sea Shepherd
Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa sent Paul Watson, stofnanda Sea Shepherd, formlega áskorun um að hætta við öll áform um að sigla skipi sínu til Íslands. Formaður samtakanna segir áform Sea Shepherd ekki þjóna hagsmunum hvalaskoðunarfyrirtækja hér á landi.

 

„Við erum algjörlega á móti svona framkomu," sagði Ásbjörn Björgvinsson, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, í samtali við Vísi. „Það þjónar ekki okkar hagsmunum að svona aðgerðir eigi sér stað við landið. Við sjáum að Íslendingar eru smám saman að átta sig á tilgangsleysi hvalveiðanna. Við teljum því skynsamlegra að vinna þennan slag hér innanlands."

 

Í yfirlýsingu, sem Hvalaskoðunarsamtökin sendu Paul Watson í gær, kemur fram að samtökin leggjast eindregið gegn öllum mótmælaaðgerðum sem brjóta á bága við íslensk lög. Að mati samtakanna ýta slíkar aðgerðir undir þjóðarstoltið og þá skoðun að hvalveiðar séu nauðsynlegur hluti af sjálfstæði Íslendinga.

 

Þá skora Hvalaskoðunarsamtökin jafnframt á nýja ríkisstjórn Íslands að hlutast til um að viðurkenna hvalaskoðun sem fullgilda og réttmæta nýtingu á hvalastofnunum við Ísland. Ennfremur skora samtökin á ríkisstjórnina að stöðva um leið allar hvalveiðar áður en þær hafa í för með sér enn frekari skaða fyrir ferðaþjónustuna og aðrar mikilvægar útflutningsgreinar og útrásarfyrirtæki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×