Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur og fíkniefnabrot

Mynd/Vísir

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur og fíkniefnabrot. Þá var hann dæmdur til að greiða nærri 170 þúsund krónur í sekt.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft lítilræði af hassi í fórum sínum þegar lögregla í Vestmannaeyjum leitaði á honum þegar hann kom með Herjólfi til Eyja skömmu fyrir jólin 2005.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa stolið bíl í Eyjum og ekið honum undir áhrifum áfengis og án ökuskírteinis. Enn fremur var hann ákærður fyrir að hafa í annað sinn ekið undir áhrifum áfengis og reynt að flýja frá lögreglu þegar hún hugðist hafa afskipti af honum.

Maðurinn viðurkenndi fíkniefnabrot sitt og síðari ölvunaraksturinn en sagðist ekki muna eftir hvort hann hefði stolið bíl og ekið honum fullur sökum of mikillar ölvunar. Ýmsir munir tengdir manninum fundust í bílnum og taldi dómurinn því langlíklegast að maðurinn hefði einhvern tíma umrædda nótt komið í bifreiðina.

Hins vegar hefði enginn orðið vitni að því þegar hann ók bílnum og þá hefði lögregla ekki rannsakað hvort ákærði hefði ekið bifreiðinni, svo sem með því að taka fingraför. Enn fremur hefði maðurinn ekki farið í alkóhólrannsókn. Þótti dómnum því slíkur vafi í málinu að sýkna bæri manninn af þessum ákærulið.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Auk fjögurra mánaða fangelsis sem skilorðsbundið er til tveggja ára og sektar var maðurinn sviptur ökurétti í eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×