Innlent

Þurfa að breyta rafmagnskerfinu á gamla varnarsvæðinu

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/TJ

Umbreyta þarf rafkerfinu í öllum íbúðum á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli úr bandarísku kerfi yfir í það íslenska áður en hægt verður að taka þær í notkun. Stefnt er að því að leigja út um 300 íbúðir og einstaklingsherbergi næsta haust í samræmi við áætlun um uppbyggingu háskólasamfélags á svæðinu.Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segir um stóra aðgerð að ræða en að allt verði frágengið í haust.

„Umbreytingin á rafkerfinu er eitt af okkar stórum málum," sagði Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, í samtali við Vísi. „Við höfum átt gott samstarf við Neytendastofu vegna þessa og fengið upplýsingar frá þeim. Það verður gengið frá öllu í samræmi við reglugerðir."

Í gær fór fram kynning fyrir almenning á aðstöðunni á gamla varnarsvæðinu. Gafst fólki þá ennfremur kostur að leggja fram umsóknir um leiguíbúðir en um 300 íbúðir og einstaklingsherbergi verða leigð út næsta haust.

Allar íbúðir á svæðinu eru með bandarískt rafkerfi sem er töluvert ólíkt því íslenska. Hafa rafvirkjar meðal annars bent á bandaríska kerfið sé mun hættulegra. Þar séu til að mynda engir lekaliðir og öll öryggi með mun hærra útleysismark en íslenskar reglur segja til um. Þá er mun minni spenna í bandaríska kerfinu sem gerir það að verkum að ekki er hægt að nota íslensk raftæki.

Kjartan segir að unnið verði að umbreytingunum í ákveðnum skrefum. Í fyrsta áfangi verði rafmagnsmálum komið í lag í þeim íbúðum sem leigja á út næsta haust. Hann segir þó ekki liggja hvað þetta komi til með að kosta. „Við erum að höndla með gríðarleg verðmæti. Kostnaðurinn vegna þessara umbreytinga er því frekar lítill miðað hlutfall af byggingarkostnaði heils mannvirkis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×