Íslenski boltinn

Landsbankadeildin fyrirferðamikil á Sýn

Sjónvarpsstöðin Sýn mun í sumar gera Landsbankadeildinni í knattspyrnu betri skil en nokkru sinni fyrr og alls verða þrjár beinar útsendingar á stöðinni frá fyrstu umferðinni. Sérstakur upphitunarþáttur verður í opinni dagskrá stöðvarinnar á fimmtudagskvöldið klukkan 21.

Fyrsta beina útsending sumarsins verður þann 12. maí með stórleik ÍA og FH á Skaganum en þar tekur Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA á móti fyrrum lærisveinum sínum í FH - þeim Arnari og Bjarka Gunnlaugssonum sem gengnir eru í raðir Hafnarfjarðarliðsins. Útsendingin hefst klukkan 13:45.

Daginn eftir verður bein útsending frá leik erkifjendanna Vals og Fram klukkan 15:45 og daginn þar á eftir, þann 14. maí, verður bein útsending frá leik KR og Keflavíkur klukkan 19:45. Þessi lið mættust í bikarúrslitaleiknum síðasta sumar.

Á fimmtudagskvöldið verður svo árlegur upphitunarþáttur Sýnar fyrir sumarið í Landsbankadeildinni. Þar fær Hörður Magnússon til sín góða gesti í settið þar sem spáð verður í spilið fyrir sumarið. Á meðal þeirra sem koma við sögu í þættinum verða Guðjón Þórðarson, Björgólfur Guðmundsson, Geir Þorsteinsson, Ólafur Jóhannesson og Teitur Þórðarson. Rúsínan í pylsuendanum verður svo frumflutningur Hafnarfjarðarmafíunar á nýju stuðningsmannalagi Íslandsmeistaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×