Innlent

Prestar biðjast afsökunar

MYND/Vilhelm G.

Prestar Digraneskirkju hafa beðist afsökunar á því að hafa neitað að ferma unga stúlku á þeim forsendum að hún væri ekki skráð í Þjóðkirkjuna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem prestarnir sendu frá sér í dag. Þeir harma hafa valdið stúlkunni og fjölskyldu hennar sárindum.

Yfirlýsing prestanna kemur í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla þar sem greint var frá því að þeir hefðu neitað að ferma stúlku úr Fríkirkjusöfnuðinum nema móðir hennar gengi til liðs við Þjóðkirkjuna.

Í yfirlýsingunni segjast prestarnir hafa orðið varir við að fólk sem leiti til þeirra með kirkjulega þjónustu og sálgæslu séu í sumum tilvikum skráð í önnur trúfélög án þess að gera sér grein fyrir því. Þeim þótti því ekki óeðlilegt að setja þau skilyrði að fólk sem þægi alla sína kirkjulegu þjónustu í Þjóðkirkjunni væri skráð í hana.

Þá kemur ennfremur fram í yfirlýsingu prestanna að afstaða þeirra hafi vakið sterk viðbrögð og því hafi þeir í samráði við biskup Íslands ákveðið að fella niður umrædd skilyrði í október á síðasta ári. Benda þeir ennfremur á að þeir hafi ekki sett viðlíka skilyrði varðandi aðra kirkjulega þjónustu.

Þeir harma, í ljósi umfjöllunar fjölmiðla, að hafa valdið stúlkunni og fjölskyldu hennar sársauka og biðjast afsökunar á því.

Undir yfirlýsinguna skrifa sr. Magnús Björn Björnsson, prestur, og sr. Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×