Innlent

Hálfhífaður ökumaður með smábarn í bílnum

MYND/Stefán K.

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði í gærkvöldi ökumann vegna gruns um ölvun við akstur. Ökumaðurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, reyndist vera rétt undir leyfilegum mörkum en var samt látinn hætta akstri enda með smábarn í bílnum. Alls voru tveir karlmenn teknir fyrir ölvunarakstur í austurborginni í gær og var annar þeirra hátt á áttræðisaldri.

Þá stöðvaði lögreglan þrjá karlkyns ökumenn til viðbótar en þeir reyndust allir vera réttindalausir. Tveir þeirra, sem báðir eru á fertugsaldri, höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en sá þriðji, 17 ára, hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Hann hefur fjórum sinnum í vetur verið tekinn fyrir þetta sama brot.

Alls voru tuttugu og átta umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í einu tilviki var fólk flutt á slysadeild og í öðru ætlaði viðkomandi sjálfur að leita sér læknisaðstoðar. Þá voru nokkrir teknir fyrir hraðakstur og allmargir fyrir að spenna ekki beltin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×