Enski boltinn

City tapaði sínum fyrstu stigum á heimavelli

Elvar Geir Magnússon skrifar
Darius Vassell skoraði fyrsta mark leiksins.
Darius Vassell skoraði fyrsta mark leiksins.

Nítjándu umferð ensku úrvalsdeildarinnar lauk í kvöld með leik Manchester City og Blackburn. Paragvæinn Roque Santa Cruz sá til þess að Blackburn tók stig frá þessum erfiða útivelli en leikurinn endaði 2-2 þar sem Cruz skoraði bæði mörk Blackburn.

Leikurinn fór rólega af stað en á 27. mínútu kom heldur betur líf í hann. Martin Petrov bjó þá til mark fyrir Darius Vassell. Hann lyfti boltanum á Vassell sem átti ekki í vandræðum með að skora fyrir heimamenn.

Nákvæmlega mínútu síðar jafnaði Santa Cruz með glæsilegum skalla. Þriðja markið á jafn mörgum mínútum kom síðan hinumegin þegar Ryan Nelsen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Martin Petrov átti heiðurinn af markinu en hann gerði varnarmönnum Blackburn lífið leitt í fyrri hálfleik.

Santa Cruz skoraði eina markið í seinni hálfleik. Það kom á 83. mínútu og aftur skoraði þessi magnaði skallamaður. Hann hefur gert þrettán mörk á tímabilinu.

Úrslitin 2-2 og eru þetta fyrstu stigin sem City tapar á heimavelli. City er enn í fimmta sæti deildarinnar, stigi á eftir Liverpool, en Blackburn er í níunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×