Enski boltinn

Brynjar Björn: Átti þetta skilið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Brynjar Björn, leikmaður Reading, fékk rauða spjaldið gegn West Ham.
Brynjar Björn, leikmaður Reading, fékk rauða spjaldið gegn West Ham.

Brynjar Björn Gunnarsson segir að rauða spjaldið sem hann fékk gegn West Ham hafi verið réttur dómur. Hann á yfir höfði sér þriggja leikja bann fyrir tveggja fóta tæklingu á Hayden Mullins.

„Það var enginn ásetningur í þessu hjá mér en tæklingin var illa tímasett og ég átti skilið þetta rauða spjald. Tveggja fóta tæklingar hafa verið mikið í umræðunni og dómarar taka harðar á þeim en áður," sagði Brynjar við staðarblaðið í Reading.

„Það eru mörg brot sem eru grófari en þetta en hinsvegar er ekki þess virði að ákæra. Það eru margir leikir framundan og ég fer aftur að spila innan nokkurra vikna."

Brynjar hefur átt við meiðsli á hné að stríða og segir að það hafi spilað inn í. „Ég fór með báðar lappirnar í tæklinguna að hluta til vegna þess að ég reyndi að verja hné mitt. Dómarinn vissi það auðvitað ekki. Ég er búinn að sjá upptöku af þessu atviki og skil af hverju ég fékk rautt," sagði Brynjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×