Enski boltinn

Markalaust hjá Portsmouth og Arsenal - United hélt toppsætinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson og Alexander Hleb berjast um boltann.
Hermann Hreiðarsson og Alexander Hleb berjast um boltann. Nordic Photos / Getty Images
Manchester United er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir að Arsenal og Portsmouth gerðu markalaust jafntefli á Fratton Park í kvöld.

Fyrir leikinn hafði Arsenal skorað í öllum sínum deildarleikjum á tímabilinu en þetta er langt í frá fyrsta markalausa jafntefli Portsmouth í ár.

Leikurinn var sá síðasti sem var á dagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í dag en dagurinn hafði verið afar fjörlegur.

Arsene Wenger ákvað að stilla upp sama liði og vann sigur á Tottenham um helgina en Harry Redknapp gerði þrjár breytingar á liði Portsmouth sem tapaði 4-1 fyrir Liverpool.

Lauern og Kanu voru í byrjunarliði Portsmouth sem og Richard Hughes.

Portsmouth hefur fjórum sinnum gert markalaust jafntefli á heimavelli í deildinni og fyrir utan 7-4 sigurinn á Reading hefur Portsmouth aðeins skorað fjögur mörk á heimavelli á tímabilinu.

Leikurinn byrjaði þó fjörlega og bæði lið gerðu sig líkleg til að skapa usla fyrir framan mark andstæðingsins.

Nico Kranjcar átti ágætt skot að marki sem fór naumlega framhjá marki Arsenal. Skömmu síðar varði David James vel frá Tomas Rosicky.

En annars var fremur fátt um opin færi í fyrri hálfleik og markalaust þegar gengið var til búningsklefa.

Benjani fékk svo gott færi í síðari hálfleik er hann slapp í gegnum vörn Arsenal. En hann náði ekki að koma sér í nægilega gott skotfæri og þar með rann sú sókn út í sandinn.

William Gallas átti svo skot að marki af stuttu færi undir lok leiksins en boltinn fór yfir markið.

Í uppbótartíma fékk svo Rosicky gullið tækifæri til að halda Arsenal á toppnum. Hann fékk gott skotfæri eftir góðan undirbúning Nicklas Bendtner en Tékkinn hitti ekki markið.

Þar við sat og Manchester United hefur því formlega komið sér í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×