Innlent

Fjórir af hverjum tíu kaupa dýrari gjafir en þeir vilja

MYND/Heiða

Tveir af hverjum þremur kannast við að hafa fengið gjöf sem þeir hafa ekki not fyrir. Þeir kannast einnig við að hafa ekki skipt henni vegna tillitssemi við gefandann.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði til að greina viðhorf landsmanna til sóunar og endurvinnslu og greint er frá á vef umhverfissviðs borgarinnar. Spurningalistar voru sendir til þrjú þúsund manns í mars síðastliðnum og var svarhlutfallið um 40 prósent.

Könnunin leiðir einnig í ljós að svarendur telja sig gefa gjafir fyrir um 40 til 50 þúsund á ári og flestir eða 84 prósent telja sig fá gjafir sem koma að góðum notum. Karlar kaupa gjafir að meðaltali fyrir hærri upphæðir en konur og þeir sem eldri eru kaupa gjafir fyrir hærri upphæðir en þeir sem yngri eru. Þá kaupa 40 prósent dýrari gjafir en þeir vilja í raun.

Meirihluti svarenda segist hafa fengið gjöf sem átti að skipta en að einhverjum ástæðum hafði það síðan misfarist. Þeir sem yngri eru hafa frekar látið hjá líða að skila gjöfum sem henta ekki og einnig þeir sem hafa hærri tekjur og meiri menntun. „Skil á slíkum gjöfum dregur úr sóun því ónotuð gjöf nýtist engum," segir Einar Mar Þórðarson, sérfræðingur hjá Félagsvísindastofnun sem hafði umsjón með könnuninni.

Fram kemur í frétt umhverfissviðs að skýrsla með niðurstöðum könnunar á neysluvenjum og viðhorfum til endurvinnslu komi út í janúar á næsta ári. Könnunin er samstarfsverkefni sorpstöðva á suðvesturhorninu, umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Neytendasamtakanna, Landverndar og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×