Innlent

Ekki dónalegur heldur of seinn á fund

Breki Logason skrifar
Steingrímur J. Sigfússon stóð upp úr sæti sínu þegar forseti þingsins var að slíta þingfundi.
Steingrímur J. Sigfússon stóð upp úr sæti sínu þegar forseti þingsins var að slíta þingfundi.

Þegar Sturla Böðvarsson forseti alþingis var að slíta þinginu í vikunni stóð Steingrímur J. Sigfússon upp úr sæti sínu og rauk út. Nokkrum þingmönnum þótti þetta ósmekklegt hjá Steingrími sem segir eðlilegar skýringar á athæfinu.

„Ég var nú bara að hlaupa á milli funda. Það var fundur hjá stjórn flokksins niður á Suðurgötu og ég hljóp yfir til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og síðan þurfti ég að þjóta aftur á fundinn," segir Steingrímur en umræður um málið komu upp í Silfri Egils nú fyrir stundu.

Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og Egill Helgason veltu fyrir sér hvort þetta hafi ekki verið óvanalegt þar sem þingmenn hlusta yfirleitt á ræðu forseta þegar hann slítur þinginu. Ögmundur Jónasson samflokksmaður Steingríms var fljótur að eyða umræðunni og sagði þetta eiga sínar eðlilegu skýringar.

„Auðvitað var ég ekkert ánægður með þetta frumvarp og er í raun hundóánægður yfir því að verið sé að teppaleggja fyrir Ríkisstjórninni," segir Steingrímur og á þar við frumvarp um þingsköp sem Vinstri Grænir hafa einir verið á móti í þinginu.

„Menn mega síðan lesa hvað sem er út úr þessu mín vegna en aðal ástæðan var sú að ég þurfti að fara á fund," sagði Steingrímur J Sigfússon við Vísi rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×