Enski boltinn

England tekur sér tíma til að ráða landsliðsþjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brian Barwick, formaður enska knattspyrnusambandins.
Brian Barwick, formaður enska knattspyrnusambandins. Nordic Photos / Getty Images

Brian Barwick, formaður enska knattspyrnusambandsins, segir að hann muni ræða við fjölda manna og taka sér góðan tíma til að ráða nýjan landsliðsþjálfara.

Margir hafa verið orðaðir við stöðuna í fjölmiðlum og þá helst Jose Mourinho og Fabio Capello. Barwick hefur þegar ráðfært sig við John Terry, fyrirliða enska landsliðsins, John Toshack, landsliðsþjálfara Wales, Michel Platini, forseta knattspyrnusambands Evrópu og þýsku goðsögnina Franz Beckenbauer.

Hann mun enn fremur ráðfæra sig á næstunni við þá Steven Gerrard, Arsene Wenger, Sir Bobby Charlton, Sir Bobby Robson og Sir Alex Ferguson.

Barwick mun hafa sagt á fundi með stjórnarmönnum enska knattspyrnusambandsins í gær að hann væri ákveðinn í að fá þjálfara í hæsta gæðaflokki.

Hann sagði einnig að hann ætlaði að taka sér góðan tíma í verkið þar sem næsti landsleikur Englands væri ekki fyrr en eftir marga mánuði. Mikilvægast væri að finna besta manninn í starfið.

Hann og Trevor Brooking munu fara fyrir leitinni að nýjum landsliðsþjálfara og þeir munu einnig leita ráða þeirra Graham Taylor og Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfara Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×