Enski boltinn

Redknapp bitur vegna framgöngu lögreglunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp er knattspyrnustjóri Portsmouth.
Harry Redknapp er knattspyrnustjóri Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Harry Redknapp sagði í dag að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með framgöngu lögreglunnar í Englandi sem handtók hann í gær í tengslum við rannsókn á spillingu í ensku knattspyrnunni.

Lögreglan gerði rassíu á heimili hans klukkan sex í gærmorgun og voru blaðaljósmyndarar ekki langt undan. Hann segir hins vegar að rannsóknin hafi ekkert með sig að gera.

Hann var einn fimm sem voru handteknir í gær og annar var Milan Mandaric, fyrrum stjórnarformaður Portsmouth þar sem Redknapp starfar sem knattspyrnustjóri.

Redknapp sagði á blaðamannafundi í dag að hann skildi ekki af hverju hann væri viðriðinn rannsókn á máli sem snerist um greiðslur umboðsmanns til leikmanns.

„Hvað fer fram á milli umboðsmanns og leikmanns hefur ekkert með mig að gera," sagði Redknapp. „Mér finnst eins og að ég hafi verið handtekinn bara vegna þess að ég er þekktur einstaklingur."

Redknapp fundaði með leikmönnum sínum í dag. Hann gantaðist með að leikmenn hefðu ólmir viljað fá símanúmer þessa umboðsmanns því þeir hafi aldrei hitt umboðsmann sem væri viljugur til þess.

Hann var ekki á heimili sínu þegar lögreglan réðst inn þar sem hann var staddur í Þýskalandi vegna leiks í Meistaradeild Evrópu. Hann sagði að konan sín hefði verið mjög svo óttaslegin og að þetta hafi tekið mikið á fjölskyldu hans.

Meðal þeirra sem er talinn hafa verið handtekinn er Amdy Faye, leikmaður Charlton og landsliðs Senegal. Hann leikur nú með Rangers þar sem hann er á lánssamningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×