Innlent

Heilsufarsbrestir frekar en hár aldur orsök banaslysa

Breki Logason skrifar
„Oft á tíðum eru sjúklingar hinsvegar að taka lyf sem hafa slæfandi áhrif og því ættu þeir alls ekki að keyra."
„Oft á tíðum eru sjúklingar hinsvegar að taka lyf sem hafa slæfandi áhrif og því ættu þeir alls ekki að keyra."

„Hærri aldri fylgja veikindi og heilsufarsbrestir, þetta er því aðallega spurning um heilsu frekar en aldur," segir Ágúst Mogensen hjá rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Það sem af er árinu hafa orðið 14 banaslys í umferðinni og þar af fjögur á Suðurlandsvegi. Í síðustu þremur banaslysum hefur einstaklingur eldri en 65 ára látist og í öllum þeim tilvikum hefur orðið árekstur við flutningabíl eða vörubíl.

Ágúst segir að ef horft sé til alþjóðlegrar tölfræði sjáist að tíðnin sé mjög há hjá ungu fólki og hún hækki síðan aftur hjá fólki sem er 65 ára og eldri. „Það skýrist mest megnis vegna veikinda, sjúkdóma og ýmsu sem aldrinum fylgir. Við sjáum þetta sérstaklega varðandi gangandi vegfarendur þar sem lífslíkur ungrar manneskju eru hærri, beinin eru sterkari og svo framvegis," segir Ágúst.

Eins og margir hefur Rannsóknarnefnd Umferðarslysa fjallað um og fært ýmis rök fyrir því að aðreina akstursstefnur bæði á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. „Við sjáum það að þessar hörðu framaná keyrslur eru á þessum tveimur akstursleiðum. Frá höfuðborgarsvæðinu og á Selfoss og siðan frá höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarnes. Við höfum sem betur fer losnað við slys af þessu tagi á Reykjanesbraut eftir að þar var gripið til aðgerða."

Ekkert banaslys hefur orðið á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar sem er tvöfaldur. Ágúst man þó eftir einu slysi fyrir nokkrum árum en það var á kafla þar sem ekki var búið að taka akreinarnar í notkun.

Ágúst bendir á Varnaðarskýrslu um veikindi ökumanna sem RNU gaf út fyrir nokkru þar sem velt er fyrir sér hvaða leiðir sé hægt að fara í að greina og ráðleggja fólki um að aka ekki lengur. „Við höfum bent Samgönguráðuneytinu á að það þurfi að endurskoða reglur sem um þetta gilda. Þær eru ekki nógu góðar og það er ekki nóg af haldföstum greiningum sem hægt er að notast við."

Ágúst bendir á að læknar séu oft í erfiðri stöðu þar sem þeir eru bundnir trúnaði við sjúklinga sína. „Oft á tíðum eru sjúklingar hinsvegar að taka lyf sem hafa slæfandi áhrif og því ættu þeir alls ekki að keyra. En flækjustigið er síðan óendanlegt þar sem fólk hefur mismunandi þol gagnvart lyfjum og fleira í þeim dúr, þetta er því nokkuð flókið."

Ágúst segir eftirlitið mest með ungum ökumönnum en síðan komi gat í kerfinu. „Þegar þú endurnýjar og færð fullnaðarréttindin er ekkert fylgst með þér þar til þú verður sjötugur. Ekki nema þú verrði uppvís að einhverju vítaverki, þá detturðu aftur inn í kerfið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×