Innlent

Gera ekki ráð fyrir neinum almennum launahækkunum

Samtök atvinnulífsins gera ekki ráð fyrir neinum almennum launahækkunum í næstu kjarasamningum en lágmarkslaun verði þó hækkuð. Hófstilltir kjarasamningar eru lykilatriði segir bankastjóri Landsbankans.

Samtök atvinnulífsins efndu til fundar á Hilton Reykjavík Nordica í morgun þar sem rætt var hvert vinnumarkaðurinn stefndi og um hvað ætti að semja fyrir komandi kjarasamninga. Samtökin gera ekki ráð fyrir neinum almennum launahækkunum þó lágmarkslaun verði hækkuð. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir heildarkostnað við gerð næstu kjarasamninga miðast við sömu hækkanir og á Norðurlöndunum.

 

Þá vék Vilhjálmur að áfallatryggingum hjá stéttarfélögum sem hann telur vera framleiðslutæki fyrir öryrkja. Öryrkjum hafi fjölgað og þeir séu látnir afskiptalausir of lengi. Hætta sé á að þeir komist ekki aftur á vinnumarkaðinn. Samtökin vilja annars konar aðgerðir.

 

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði aðstæður á erlendum mörkuðum óvenjulegar sem bitnuðu einnig á íslenskum markaði. Gríðarlegar vaxtahækkanir ættu sér stað á miklum hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×